13 November 2007

Það gæti ringt á Bonkers þannig að vertu Under my umbrella, ella ella eh eh eh, en ef ekki finndu þér þá bara norðmann

Þá er kominn tími á framhald af ferðasögunni.

Þegar við komumst loks upp og búnar að fá okkur að borða, dýran en góðan mat. Það er greinilegt að það á að féfletta mann alveg þangað til að lent er í öðru landi. Hver króna skiptir máli. Alla vega þá sátum við þarna og létum okkur leiðast, því við vorum jú langt á undan áætlun. Loks var komin tími til að labba að hliðinu, þegar við vorum búnar að sýna vegabréfin og komnar í gegn fattaði ég að síminn minn var ekki í töskunni. Það kom nú frekar mikið fát á mig og ég hljóp til baka. Sem betur fer lá þá litli síminn í sætinu sem ég hafði setið í. Svo þegar ég var að fara til baka hló strákurinn í vegabréfa búrinu að mér. Fannst ég greinilega eitthvað skondin hlaupandi þarna fram og til baka eins og eitthvert sirkusdýr.

Loks vorum við komnar á flug og áttum 5 tíma eftir af flugi. Þá var bara að horfa á leiðinlega mynd, ja eða bara sofna á öxlunum á mér. Ég er svona labbandi koddi, það getur verið gott að vera ég. Meðan við sátum þarna var okkur litið yfir ganginn. Venjulega er það eitthvað sem maður gerir og sér ekkert merkilegt, en það var nú annað núna. Þarna sat þá þessi sæti, sæti strákur. Dökkhærður og flottur. Hann var aðalumræðu efnið á leiðinni, því ekki var myndin góð.
En loks stigum við út úr vélinni, og þvílíkur hiti sem tók á móti okkur, það var dásamlegt. Arna B. hafði orð á því hversu frábært væri að vera komin, en það heyrðist nú ekki alveg því hún húrraðist nærri niður tröppurnar. En er ekki sagt, fall er fararheill. Okkur var síðan keyrt inn í flugstöðina, sem var ábyggilega jafn stór og Reykjavíkurflugvöllur, en það var einhver sem lyktaði mjög illa þarna inni þannig að maður var að halda niðri í sér andanum, sem var klárlega ekki að gera sig í þessum hita. Loks var komið inn og biðin eftir töskunum hófst. Og sú bíð var LÖNG. Við biðum og biðum og dokuðum og dokuðum, en það eina sem við heyrðum var eitthvað hræðilega pirrandi bíbb sem kom alltaf á undan tilkynningunum, sem voru ekki á ensku, þannig að við skildum ekkert hvað var í gangi. Loks komu töskurnar okkar og við gátum farið út, þar var okkur troðið inn í rútu sem keyrði okkur svo á áfangastað. Og þarna sat ég í rútunni, við hliðina á einhverri íslenskri stelpu, ekki vitandi að þetta ætti eftir að verða ein af skemmtilegustu viku lífsins. Stelpurnar sátu og sváfu, enda tekur það á að ferðast, svo þurfti líka að safna kröftum fyrir kvöldið. Eftir klukkutíma ferð vorum við komnar.
Þá var bara að tékka sig inn á hótelið. Við fengum það yndislega herbergi númer ... . Þegar við vorum komnar var skellt sér í rétta dressið fyrir kvöldið, ætluðum að skella okkar að borða og kanna umhverfið.
Það hefur greinilega sést á okkur að við vorum nýkomnar, við vorum hvítar eins og nýfallinn snjór, þá sérstaklega ég, því allir þeir sem vinna við að draga fólk inn á veitinga- og skemmtistaði þurstu að okkur. Allir vildu benda okkur á hve frábært væri á þeirra stöðum. Við hlustuðum af athygli, enda vildum við vita hvar réttu staðirnir væru. Það varð samt frekar leiðinlegt til lengdar því við vorum orðnar mjög svangar. Það var þetta kvöld sem markaði uppaf hefðar sem átti eftir að lita ferð mína, það var að borða bara salat þessa viku. Við höfðum labbað lengi lengi þegar loks við ákváðum að setjast inn á stað sem var með Mikka mús skilti fyrir framan. Við sátum þarna svaka spenntar og hlustuðum á frábæran söng hjá konu einni og hljómsveit hennar, sem saman stóð af einum manni með hljómborð. Á einum tímapunkti var ég að hugsa um að hjálpa konu greyinu því hún mundi ekki einu sinni textann við lögin sem hún var að syngja. En þetta er nú aðeins útúrdúr, því aðal punkturinn í þessari færslu er sá, hversu VIÐBJÓÐSLEGUR maturinn var. Eftir að hafa skálað í innlendan bjór, byrjuðum við að borða. Ég hafði í mesta sakleysi mínu panntað sesar-salat, og þeir sem hafa borðað þannig vita að það er ekki fiskur í því. En þegar diskurinn var settur fyrir framan mig var það eina sem ég sá, og fann lykt af, var fiskur. En hann var nú samt falinn með sítrónu. Þetta er einn sá ógeðslegi matur sem ég hef smakkað. Maturinn hennar Örnu B. var nú aðeins skárri, og þá meina ég aðeins. Hún fékk sér spagetthi bolognes(hvernig sem það er nú skrifað). Hins vegar var Arna A. mjög heppin, hennar Pizza bragðaðist mjög vel, því lík heppni í stelpunni. Það var því þannig og sumar okkar fóru út af staðnum jafn svangar og þær komu inn. Ekki góð meðmæli það.

Meira kemur á morgun, er alveg að sofna :)

07 November 2007

135 dagar síðan Hugo söng Einen Stern der Deinen Namen trägt

Þar sem ég sat á kaffi parís síðast liðið föstudagskvöld, með þeim Örnu A. og Örnu B. var mér bent á að ég ætti eftir að setja ferðasöguna frá því í sumar hérna inn. Sat ég lengi núna um helgina og hugsaði um, reyndi að rifja upp, ferðina góðu. Þá rann upp fyrir mér að það eru 135 dagar, þegar þetta er ritað, síðan við komum heim. Hvernig átti ég að geta skrifað þetta allt nákvæmt niður ? Niðurstaða: það er ekki hægt, hins vegar ætla ég að gera það eftir fremst megni, og hverju skiptir það hvaða kvöld hvað gerðist, ég var heldur ekki með þeim allan tímann.

Þetta byrjaði allt sem grín hjá mér. Örnunar voru að tala um að fara saman til útlanda og ég spurði, í mesta gríni, hvort það væri ekki pláss fyrir einn í viðbót. Þær héldu það nú og sögðu að það yrði bara meira fjör. En ég hugsaði nú ekki mikið meira um þetta í bili fyrr en Arna Björk hringdi í mig og spurði hvort ég ætlaði að koma með þeim til Búlgaríu. HA? sagði ég, "Búlgaríu? má ég svara þér á eftir, þarf að spyrja hvort ég fái viku frí" það var nú minnst en ég varð að fá svar fljótt því það þurfti að borga ferðina sem fyrst. Það var nú heldur ekki mikill tími til stefnu, en ég fékk fríið rúmum 2 vikum fyrir brottför. Þá var að fara að huga að því hræðilegasta af öllu. BIKINÍ !!! það er mín versta martröð, átti nefnilega ekki það góðar minningar frá Salou. Hafði keypt mér bikiní í júní það sumar og svo þegar loks kom að Salou ferðinni hafði efri parturinn eitthvað vaxið því þegar ég lá í sólbaði og ætlaði að snúa mér við, ultu þessar elskur upp úr toppnum. En maður bjargar sér og það voru keypt ný. Það var árið 2003 þannig að það var kominn tímin á ný þar sem árið er 2007, en það ótrúlega gerðist. Ég fór ásamt Örnu B í þá búð sem íslendingum finnst skemmtilegast að versla og keypti það fysta bikiní sem ég sá. Að vísu eftir að hafa verið pintuð til að máta. En svo talið berist að einhverju öðru en fóbíu minni fyrir sundfötum er best að byrja á hinni raunverulegu ferðasögu en hún hefst í Karlagötu 20 sunnudagskvöldið 17.júní kl 23 þegar Örnunar bönkuðu upp á með ferðatöskurnar í skottinu á bílnum hennar Örnu B.
Það hafði verið ákveðið að vera allar heima hjá einhverri okkar nóttina áður en við áttum flug, svo að enginn mindi nú vera sein eða sofa yfir sig. Vildum forðast allt vesen. Það var mikill spenningur í fólki og þær stöllur brustu í móðursýkislegan hlátur þegar þær sáu ferðatöskuna mína, þeim þótti hún frekar lítil og aumingjaleg. Ég tel það vera hæfileiki að geta ferðast létt. Helda að taskan mín hafi verið vel undir 10kg. Samt var ég með 3 ef ekki 4 skó pör. Til að byrja með voru allir voða hressir en þegar leið á nóttina fór svefnin að síga á. Við stittum okkur stundir með því að horfa á "klassískar" gelgjumyndir. En loks var komið að brottför en áður en við fórum út, skáluðum við fyrir góðri ferð, reyndar bara í kók en eigi að síður. Við vorum ekki komnar út úr bænum áður en frábærar setningar fóru að fjúka sem áttu efir að fylgja okkur í ferðinni.
Keflavíkurairport stóð á skiltinu, við höfðum þetta af eftir að hafa hlustað á gömul og góð íslensklög sem og rock star lögin. Þegar inn var komið komumst við að því að við gætum ekki "tékkað" okkur inn fyrr en eftir LANGAN tíma, hann var ekki það í alvöru okkur fannst það bara vegna spennu og hungurs. Við vorum nefnilega allar mjög svangar en urðum að bíða og fengum okkur því sæti upp við einhvern vegg. Taka fram að við SÁTUM, ekki lágum eins og fólkið sem var hinu megin við vegginn. Eftir að hafa setið þarna dágóða stund, og horft á fólkið mæta til vinnu, lagðist Arna B niður. Nema hvað þá þurstu 2 öryggisverður út og bentu okkur á það að þetta væri ekki hótel! Þannig að það varð ekkert úr blundinum, hún varð bara að gera það sama og ég og Arna A, sitja. Þegar tíminn var kominn vorum við fyrstar í röðinni, vildu fara upp að borða.